Þorvaldur Ingvarsson læknir, sem er forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri, keypti í dag hlutabréf í fyrirtækinu samkvæmt kaupréttarsamningi og seld aftur strax í kjölfarið. Nam hagnaður hans af viðskiptunum um 105 milljónum króna. Þetta má sjá af tilkynningum sem fyrirtækið sendi frá sér til Kauphallarinnar í dag.

Í fyrri viðskiptunum keypti Þorvaldur 350.000 hluti af Össuri á genginu 8,59 danskar krónur á hlut. Nemur kaupverðið á hlutnum rúmlega 59,5 milljónum íslenskra króna. Strax í kjölfarið seldi Þorvaldur 343.911 hluti í fyrirtækinu á 480 krónur á hlut, eða fyrir rúmlega 165 milljónir króna. Nemur hagnaður hans af viðskiptunum því um 105 milljónum króna.

Þorvaldur seldi einnig hluti í Össuri í maí síðastliðnum fyrir rúmar 70 milljónir króna. Eftir viðskipti dagsins á hann 8.684 hluti í fyrirtækinu, en kauprétt að 225.000 hlutum.