Dr. Hersir Sigurgeirsson hefur verið ráðinn forstjóri Saga Fjárfestingarbanka og tekur við starfinu af Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni sem hefur sagt starfi sínu lausu. Hersir starfaði áður sem framkvæmdastjóri Áhættustýringar hjá Saga Fjárfestingarbanka.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Úr fréttatilkynningu:

Hersir Sigurgeirsson, forstjóri MP banka, 24703
Hersir Sigurgeirsson, forstjóri MP banka, 24703
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hersir Sigurgeirsson.

„Hann hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum og starfaði meðal annars hjá Kaupþingi. Hersir er doktor í stærðfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum og hefur samhliða starfi sínu hjá Saga sinnt kennslu við Háskóla Íslands.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson sem verið hefur forstjóri Saga Fjárfestingarbanka frá upphafi, tilkynnti stjórn bankans uppsögn sína í dag og lætur af störfum nú þegar, að eigin ósk.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fráfarandi forstjóri Saga Fjárfestingarbanka:

„Umhverfi bankans hefur verið erfitt og aðstæður allar í samfélaginu og fjölmiðlaumhverfi þungar á undanförnum árum. Ég hef afráðið að segja upp störfum með tilliti til hagsmuna þess banka sem ég tók þátt í að stofna og hef veitt forstöðu frá stofnun. Ég hverf á braut sáttur við árangur frá hruni, enda fordæmalausar aðstæður að baki. Ég óska bankanum hins besta og tel hann afar vel staðsettan til að fanga þann meðbyr sem gefst þegar aðstæður í efnahagslífinu og samfélaginu batna. Ég vil þakka frábæru og ósérhlífnu starfsfólki, hluthöfum sem og viðskiptamönnum, sem sýnt hafa mér og bankanum mikla hollustu og veit að bankinn er vel mannaður til að halda ótrauður áfram.“

Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Saga Fjárfestingarbanka:

„Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka Þorvaldi fyrir hans störf við uppbyggingu og stofnun bankans og þann mikla árangur að halda bankanum starfandi við þær erfiðu aðstæður sem verið hafa á íslenskum fjármálamarkaði.“

Saga Fjárfestingarbanki var stofnaður síðla hausts 2006 og er eini sérhæfði fjárfestingarbanki landsins. Bankinn sérhæfir sig í þjónustu við íslenskt atvinnulíf og býður upp á alla hefðbundna fjárfestingarbankaþjónustu svo sem fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun, skuldabréfaútboð og fjárfestingaráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og annarra fagfjárfesta.“