Þorvaldur Þorláksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heildsölu og dreifingar hjá Nýherja, en sviðið annast innflutning, sölu og dreifingu á vörum í gegnum heildsölu og rekstur á verkstæði og lager fyrirtækisins.

Þorvaldur var áður deildarstjóri Lausna og þjónustu hjá Nýherja. Fram kemur í tilkynningu að hann hefur fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi, leiddi meðal annars uppbyggingu og rekstur nýsköpunarhúss O2 fyrir Viðskiptaráð Íslands. Þá var hann framkvæmdastjóri SMI Iceland ehf. (Smáratorg) 2007-2009, framkvæmdastjóri Bónusvídeós ehf. 2003-2007 og markaðsstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Smáralindar á árunum 2000-2003. Hann starfaði á árunum 1996-2000 hjá Tæknivali, m.a. sem gæða- og innkaupastjóri.

Þorvaldur er rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Hann er í sambúð með Helgu Þóru Árnadóttur og eiga þau tvo syni.

Heildsala og dreifing er hluti af nýju skipulagi Nýherja, sem felur í sér stóraukna áherslu á þjónustu og sölustarf. Tæknimenn og sölufólk munu starfa á sama tekjusviði að þróun lausna og í sölu- og markaðssetningu. Tekjusvið félagsins í nýju skipulagi verða tvö, Lausnir og þjónusta og Heildsala og dreifing.

Nýtt skipulag Nýherja tekur gildi 1. október næstkomandi