Fyrir rúmum 20 árum keypti Gunnar M. Guðmundsson Sérleyfisbíla Akureyrar en á þeim tíma var fyrirtækið lítið með nokkra bíla og reksturinn gekk brösuglega. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag er fyrirtækið eitt af stærstu hópferðafyrirtækjum landsins með 75 bíla í notkun þegar mest lætur yfir sumartímann.

Upphaflega stofnaði Jón Egilsson Ferðaskrifstofu Akureyrar 1950 en árið 1980 skipti hann fyrirtækinu upp og rak bíladeildina sér frá 1980 og seldi hinn hlutann. Gunnar hóf það sama ár störf hjá Jóni en keypti af honum fyrirtækið fjórum árum síð­ar. Spurður hvers vegna Gunnar hafi farið út í þennan rekstur segir hann þetta vera eina af tilviljununum í lífinu.

„Það var nú ekki ætlunin en þetta tækifæri kom upp í hendurnar á mér og ég var svo vitlaus að fara út í þetta. Það var nú ekki gæðalegt í upphafi, ég var ekki nema 25 ára og þetta þótti bjartsýnisleg vitleysa. Þetta slapp þó fyrir horn og síðan hefur þetta smám saman braggast. Ferðaþjónustan efldist á þessum árum og um árið 2000 fór maður að huga að því að komast inn á Reykjavíkurmarkaðinn. Árið 2001 kaupum við Norðurleið sem var nokkuð stórt fyrirtæki og einnig litla deild af Birni Sigurðssyni á Húsavík sem var með hópferðir líka. Þá var svolítið stökk í þessu og við vorum með 33 bíla. Síðan eftir 2000 eftir hefur leiðin verið skörp upp á við.“

Ítarlegt viðtal er við Gunnar M. Guðmundsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .