*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 29. maí 2021 11:38

Þrálátt atvinnuleysi vofir yfir

Miklu atvinnuleysi er spáð næstu árin. Margir gætu orðið tregir til ráðninga og launahækkanir gert illt verra.

Júlíus Þór Halldórsson
Þróun vinnumarkaðarins á næstu árum mun ráðast að mestu leyti af afdrifum ferðaþjónustunnar.
Haraldur Guðjónsson

Atvinnuleysi gæti orðið þrálátt næstu árin þótt það stefni í þokkalega viðspyrnu efnahagslífsins. Flestir greiningaraðilar spá því að atvinnuleysi verði yfir 5% í það minnsta út þarnæsta ár, og fjármálaáætlun 2022-2026 gerir ráð fyrir að enn verði atvinnuleysi 4,7% í lok spátímabilsins.

Flest störf sem töpuðust í heimsfaraldrinum voru í ferðaþjónustunni, sem hafði misst annað hvert starf í lok síðasta árs. Skráð árstíðaleiðrétt atvinnuleysi, að hlutabótum undanskildum, náði hápunkti í janúar þegar það sló Íslandsmet í 11,5% eftir að hafa rúmlega tvöfaldast frá upphafi faraldursins.

Í Peningamálum, sem birt voru samhliða stýrivaxtaákvörðun síðustu viku, er því spáð að atvinnuleysi lækki í 7,8% á næsta ári og 6,1% á því þarnæsta. Meðalspá hinna bankanna og helstu greiningaraðila er 6,7% á næsta ári og 5,7% árið 2023.

Aukið misræmi á vinnumarkaði
Í Peningamálum er vikið nokkuð ítarlega að áhrifum faraldursins á vinnumarkaðinn, og gerð grein fyrir forsendum fyrir spá bankans. Aukið framboð vinnuafls – bæði vegna fólksfjölgunar og aukinnar atvinnuþátttöku – verði stærsti þátturinn sem vegur upp á móti atvinnusköpun hagvaxtarins.

Bent er á að frá miðju síðasta ári hafi hlutfall lausra starfa farið vaxandi þrátt fyrir ört vaxandi atvinnuleysi, sem bendi til aukins misræmis milli lausra starfa og atvinnuleitenda.

Vísað er í niðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að neikvæður framleiðniskellur eins og sá sem ferðaþjónustan varð fyrir í fyrra hafi tilhneigingu til að draga úr vægi greinarinnar til langframa.

Launahækkanir og betri nýting framleiðslugetu
Því er ennfremur spáð að fyrirtæki muni reyna eftir bestu getu að nýta betur þá framleiðslugetu sem þegar sé til staðar, áður en ráðist verði í ráðningar. Slíkt gæti falist bæði í aukinni framleiðni þess starfsfólks sem fyrir er, en einnig lengri vinnutíma.

Að lokum er vikið að launaþróun. Bæði laun og kaupmáttur hafi hækkað frá því að faraldurinn skall á, úr takti við þróun framleiðni. Lægstu laun hafi þar að auki hækkað hlutfallslega mest, en það séu einmitt þau störf sem helst hafi tapast. Launavísitala í gisti- og veitingahúsarekstri hafi sem dæmi hækkað um 11,1% í fyrra. Erfitt geti reynst fyrir ferðaþjónustuna að velta auknum launakostnaði út í verðlag sökum alþjóðlegrar samkeppni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Peningamál Atvinnuleysi