Ungmennafélag Íslands auglýsir húsnæði í Þrastarlundi til leigu eða sölu í Fréttablaðinu í dag. Margir þekkja söluturninn og veitingahúsið vel, rauðu mölina fyrir utan og ævintýrið við ánna, sjálft Sogið, fyrir neðan.

Þrastalundur er ekki jafn mikið í alfaraleið og á árum áður. Búið er að rífa gamla skálann og var nýtt og glæsilegt hús byggt í hans stað. Það er Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, sem auglýsir húsnæðið til sölu eða leigu.

Í auglýsingunni segir: „Þrastalundur sem staðsettur er í jaðri Þrastaskógar við Sogið í Grímsnesi er ein fallegasta náttúruperla Suðurlands. Þrastalundur og Þrastaskógur bjóða upp á mikla möguleika í ferðaþjónustu, s.s. veitingarekstur, tjaldsvæði, útivist, menningarviðburði og margt fleira.“

Frestur til að skila inn tilboðum er til 20. desember.