Kórónuveirufaraldurinn, sem hefur geisað í að verða eitt ár, hefur leikið atvinnu- og efnahagslífið grátt á alþjóðavísu. Faraldurinn hefur eflaust komið flestum stjórnendum fyrirtækja í opna skjöldu og eru fyrirtækin misviðkvæm fyrir skakkaföllum á borð við fyrrnefndan heimsfaraldur. Einnig er ljóst að fyrirtækin hafa verið misvel undirbúin til að takast á við áfall af þessari stærðargráðu og í nýrri skýrslu Deloitte er einmitt varpað ljósi á það hvernig fyrirtæki geta búið sig undir frekari áföll.

Í skýrslunni, sem ber heitið Building The Resilient Organization, er farið yfir það hvað einkenni þrautseig fyrirtæki sem geta haldið sjó í gegnum krísur á borð við heimsfaraldur. Byggir skýrslan á svörum 2.260 stjórnenda fyrirtækja víða um heim við könnun Deloitte. Meðal svarenda voru stjórnendur íslenskra fyrirtækja. Í skýrslunni eru nefndir fimm helstu eiginleikar þrautseigju, sem fyrirtæki þurfa að leggja rækt við til þess að geta tekist á við frekari áföll. Umræddir fimm eiginleikar eru undirbúningur, aðlögunarhæfni, samvinna, traust og ábyrgð. Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, segir að þetta séu, samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar, þeir eiginleikar sem virðast skipta mestu máli til að fyrirtæki geti komist með sem bestum hætti í gegnum krísuástand.

„Eftir að hafa rýnt í skýrsluna sá ég að þessir fimm þættir eru einmitt þættir sem ég kannast vel við frá okkur hér hjá Deloitte á Íslandi. Ég get því heilshugar tekið undir það að þessi einkenni séu lykilatriði til að komast í gegnum krísu líkt og COVID-19 hefur verið. Þegar horft er til baka sér maður að það hefur reynt á alla þessa grunnþætti," segir hann og bætir við:

„Það var virkilega áhugavert að sjá að fyrir 2020 töldu 24% stjórnenda sig geta leitt fyrirtæki í gegnum alvarleg áföll og aðlagast ef þess þyrfti. Í miðjum heimsfaraldrinum var þessi tala svo komin upp í 34%. Þá sögðu 30% að styrkur stjórnenda hefði verið mun meiri en búist var við. En helsta áhyggjuefnið er það að um 2/3 stjórnenda telja sitt fyrirtæki ekki í stakk búið til þess að takast á við áföll og fyrirtækin séu þ.a.l. ekki nógu þrautseig."

„Skýrslan sýnir einnig að leiðtogar viðskiptalífsins á heimsvísu hafa helst áhyggjur af loftslagsbreytingum en áskoranir tengdar heilsu og sjúkdómum koma þar fast á eftir. Stjórnendurnir óttast að álíka faraldur og COVID-19 muni koma til með að dúkka upp öðru hverju í framtíðinni og telja flestir að sú röskun sem átti sér stað árið 2020 verði ekki einsdæmi. Einnig kemur fram að stjórnendur hafi ákveðna tiltrú á þrautseigju sinna fyrirtækja en telji sig þrátt fyrir það ekki alveg búna undir næstu krísu."

Jafnvægislist að forgangsraða verkefnum

Þorsteinn segir að hvað undirbúning varði, sé lykilatriði að fyrirtæki hafi gott jafnvægi milli skammtíma- og langtímamarkmiða og forgangsraði verkefnum eftir því. „Ég tók við forstjórastöðunni hjá Deloitte á Íslandi undir lok árs 2019, eða skömmu áður en COVID-19 skellur á. Þá hófum við strax stefnumótunarvinnu sem byggði á samevrópskri stefnu innan Deloitte. Við vorum því búin að leggja grunninn að stefnumótun næstu ára þegar faraldurinn skellur á." Um leið og fyrirtækið hafi þurft að gæta þess að missa ekki sjónar á langtímastefnu sinni hafi þurft að bregðast við hröðum skammtímaáhrifum faraldursins.

„Þetta hefur verið ótrúlega krefjandi verkefni en það er allra helst mikil aðlögunarhæfni okkar starfsfólks sem hefur komið okkur í gegnum þetta ár. Þrátt fyrir að nánast allt okkar starfsfólk væri að vinna í fjarvinnu þurfti á sama tíma að stytta boðleiðir og efla samskipti samhliða, til að þjónusta viðskiptavini heimshorna á milli. Það reyndi því mikið á innviði fyrirtækisins sem og mannauðinn sjálfan," segir Þorsteinn. Skýrslan dragi það fram að flestir þessara 2.260 stjórnenda telji að fjölbreytileiki starfsmannahópsins hafi mest að segja um aðlögunarhæfni fyrirtækja. „Þar sem aðlögunarhæfnin var mest tókst fyrirtækjunum betur að takast á við þessa krísu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .