*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 4. júlí 2018 18:45

Þrefalda íbúafjölda Skerjafjarðar

Oddviti Sjálfstæðismanna í borginni segir að engar nýjar lausnir á umferð liggi fyrir þó 3.000 íbúar bætist í hverfið.

Höskuldur Marselíusarson
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem eru í minnihluta í borgarstjórn. Flokkurinn fékk flesta borgarfulltrúa í síðustu kosningum..
Haraldur Guðjónsson

Borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna segja það skjóta skökku við að tillögur flokksins um uppbyggingu í Örfirisey hafi verið gagnrýndar vegna væntanlegrar aukningar á umferð þegar engin skoðun hafi verið gerð á áhrifum uppbyggingar 3.000 manna hverfis á Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag hefur borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar samþykkt rammaskipulag fyrir uppbyggingu á því landi sem borgin keypti af ríkinu og Neyðarbrautin liggur nú yfir.

Neyðarbrautin svokallaða er eina flugbrautin á suðvestursvæði landsins sem hægt er að lenda á í kröppum suðvestlægum eða norðaustlægum áttum að mati margra sérfræðinga í flugmálum sem hafa gagnrýnt lokun hennar vegna aukinnar hættu fyrir sjúkraflug og farþegaflutninga almennt.

Í bókun Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta í borgarstjórn segir að það sé mjög mikilvægt að ná jafnvægi í skipulagi og á húsnæðismarkaði og það verði að gæta þess að hverfi séu sem mest sjálfbær.

„Það skýtur skökku við að gagnrýna uppbyggingu í Örfirisey á grundvelli umferðamála en leggja hér fram tillögu um allt að 3.000 manna byggð án heildstæðs umferðarmats,“ segir í bókuninni. „Ekki liggur fyrir heildstæð umferðargreining á svæðinu né heldur höfuðborgarsvæðinu í heild. Um er að ræða þreföldun á hverfinu og því nauðsynlegt að greina áhrif þess.“

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur segir að ekki sé boðið upp á neinar nýjar lausnir til að létta umferðina þrátt fyrir þetta mikla byggingarmagn sem þarna er lagt upp með.„Þetta byggingarmagn er mun meira en upphaflega var gert ráð fyrir þegar borgin keypti landið af ríkinu,“ segir Eyþór.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is