Alphabet, móðurfélag Google skilaði tæplega 10 milljarða dollara hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem er um þrefalt betri afkoma en á sama tímabili í fyrra. Munurinn skýrist þó að hluta til af því að á öðrum ársfjórðungi síðasta árs gjaldfærði fyrirtækið 5 milljarða dollara sekt sem Evrópusambandið lagði á vegna brota Google á samkeppnisreglum.

Uppgjörið var töluvert fór fram úr væntingum greiningaraðila á Wall Street en hagnaður á hlut nam 14,21 dollara á hlut á meðan meðaltal greiningaraðila nam 11,3 dollurum á hlut. Þá námu tekjur félagsins 38,94 milljörðum dollara en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir 38,15 milljörðum.

Fjöldi borgaðra smella á auglýsingar á vefsvæðum Google jukust um 28% frá sama tímabili í fyrra á meðan kostnaður við hvern smell lækkaði um 11% frá sama tímabili í fyrra. Þá námu auglýsingatekjur fyrirtækisins 32,6 milljörðum dollara en voru 28,09 milljarða á örðum ársfjórðungi 2018. Tekjur af öðrum vörum líkt og Pixel símum og skýþjónustu námu 6,18 milljörðum dollara og jukjust um 40% milli ára.

Tekjur af skýþjónustu stendur undir stærstum hluta af öðrum tekjum Alphabet en starfsemin er nú farin að skila tekjum upp á 8 milljarða dollara á ári og er orðinn þriðji stærsti drifkrafturinn á bak við tekjuvöxt félagsins. Sundar Pichai, forstjóri Google greindi frá því á fundi með fjárfestum að stefnt væri að því að þrefalda fjölda sölufólks í skýþjónustu.

Þá greindi fyrirtækið einnig frá því að stjórn fyrirtækisins hefði samþykkt endurkaup á eigin bréfum að andvirði 25 milljarða dollara. Nemur upphæðin um 3% af markaðsvirði fyrirtækisins.

Óhætt er að segja að fjárfestar hafi tekið vel í uppgjör fyrirtækisins en gengi bréfa þess hækkaði um 8,5% á eftirmarkaði. Nemur markaðsvirði félagsins nú um 855 milljörðum dollara.