Á árunum 2008 til 2015 fjölgaði ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll úr tæpleglega 473 þúsund í 1,26 milljónir. Á sama tíma fjölgaði virkum leigubílaleyfum í landinu úr 537 í 547. Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Fréttablaðsins .

Þetta þýðir að fjöldi ferðamanna á hvern leigubíl nær þrefaldast á einungis sjö árum.  Takmörkun er á útgefnum leigubílaleyfum og hefur þessi takmörkun m.a. orðið til þess að bandaríska leigubílafyrirtækið Uber hefur enn ekki haslað sér völl hér á landi. Fyrir tveimur árum var greint frá því að nógu margar undirskriftir hefðu safnast til að Uber gæti hafið starfsemi sína í Reykjavík, en að því hefur ekki orðið enn.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Samgöngustofu og innanríkisráðuneytið um hvort Uber hefði haft samband síðastliðin tvö ár vegna mögulegrar komu til Íslands. Samkvæmt svörum hefur það ekki gerst og því er enn óvíst hvort Uber komi til Íslands i bráð.