Fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair rúmlega þrefaldaðist á milli maí og júní 2021. Flugframboð félagsins og fjöldi áfangastaða hefur aukist jafnt og þétt í takt við aukna eftirspurn eftir flugi. Þá heldur farþegum í innanlandsflugi einnig áfram að fjölga. Fraktflutningar jukust um 12% á milli ára. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir júnímánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Heildarfjöldi farþega í millilanda- og innanlandsflugi hjá Icelandair var rúmlega 94.000 í júní, þar af var fjöldi í millilandaflugi um 72.000 samanborið við tæplega 22.000 farþega í maímánuði. Fjöldi farþega til Íslands var rúmlega 45.000, tæplega fjórfalt fleiri en komu til landsins með Icelandair í júní í fyrra, þegar komufarþegar voru um 12.000. Fjöldi farþega frá Íslandi var um 12.500, samanborið við 6.200 í júní í fyrra. Farþegar yfir hafið voru 14.500 og hafa þeir ekki verið fleiri síðan í mars 2020.

Sætanýting félagsins í millilandaflugi var 53,2% í júní en líkt og á undanförnum mánuðum skýrist það að hluta til vegna þess að félagið notar stærri vélar, Boeing 767, á ákveðnum flugleiðum til að mæta eftirspurn eftir fraktflutningum samhliða farþegaflugi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var rúmlega 22.000, sem er fjölgun um 4.000 farþega miðað við maímánuð og 10.000 fleiri farþegar en ferðuðust með innanlandsflugi félagsins í júní í fyrra. Sætanýting í innanlandsflugi var 72,7% samanborið við 73,5% í júní í fyrra.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins jukust um 37% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 12% og hafa aukist um 19% á milli ára á fyrri helmingi þessa árs.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Það er ánægjulegt að sjá hversu hratt farþegum fjölgar hjá Icelandair, bæði í millilandaflugi og innanlands. Við fluttum um 45 þúsund farþega til landsins í júní sem eru rúmlega þrefalt fleiri en í maí. Það gefur okkur ákveðna mynd af því hversu eftirsóttur áfangastaður Ísland er í heimi þar sem ferðavilji er að aukast jafnt og þétt samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga. Við höfum lagt áherslu á að viðhalda innviðum og þeim sveigjanleika að geta brugðist hratt og örugglega við aukinni eftirspurn til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu og samfélagið í heild.“