Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið í notkun nýjustu kynslóð af hraðhleðslustöðvum fyrirtækisins með 150 kW hleðslugetu. Stöðin er við höfuðstöðvar fyrirtækisins við Bæjarháls. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

„Nú geta rafbílaeigendur hlaðið þrisvar sinnum hraðar en áður með nýjum hraðhleðslustöðvum ON þar sem afl þeirra mun aukast þrefalt, úr 50 kW í 150kW,“ segir Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON. Á næstu dögum verður hraðhleðslustöð ON við Miklubraut uppfærð í 150 kW og í framhaldinu verður haldið áfram að uppfæra hraðhleðslur víða um land. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.

„Með nýju hraðhleðslustöðvunum verður hægt að hlaða tvo bíla í einu á sömu stöð. Þess ber að geta að ef tveir aðilar eru að hlaða á sama tíma í 150 kW hleðslunum þá lækkar aflið í hámark 75 kW per tengi,“ segir Hafrún en bendir jafnframt á að rafbíllinn sjálfur takmarkar alltaf hversu hratt hann getur hlaðið sig.