Vöruútflutningur Íslands til Rússlands hefur meira en þrefaldast á aðeins tveimur árum - úr ríflega sex milljörðum króna árið 2009 í tæplega 20 milljarða á liðnu ári. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag.

Þessi mikla verðmætaaukning liggur fyrst og fremst í makrílnum, segir Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, í viðtali við Morgunblaðið. Að hans sögn er  Rússland stærsti einstaka markaðinn fyrir þann makríl sem er veiddur af íslenska flotanum og sem sé nú orðinn langmikilvægasta útflutningsvara Íslands á Rússlandsmarkað. Það sé hins vegar ekki aðeins frosinn fiskur sem Íslendingar flytji austur til Rússlands. Fjölbreytnin hafi aukist  og á síðustu misserum hafi nokkur íslensk fyrirtæki lagt áherslu á að koma íslenskum matvælum inn á ört vaxandi lúxusvörumarkað í Rússlandi , ekki síst lambakjöti.