Gunnar Örn Jónsson framkvæmdastjóri og annar eigenda XO veitingastaðar finnur fyrir aukinni eftirspurn í fyrirtækjapöntunum, eða sem nemur 200%, eða þreföldun, síðan samkomubann stjórnvalda vegna útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar komst á.

Segir hann það líklega aldrei verið mikilvægara að borða hollt og hreyfa sig en um þessar mundir og XO hafi fundið fyrir aukinni eftirspurn fyrstu mánuði ársins, þá aðallega frá fyrirtækjum.

En fyrirtækjaþjónusta XO hafi hins vegar aldrei verið eins vinsæl og síðustu vikurnar, eins og kannski gefi að skilja.

„Það eru að sjálfsögðu tækifæri í öllu óvissuástandi og það ástand sem nú varir mun að öllum líkindum standa yfir í einhverjar vikur en til þess að sú verði raunin verða allir að leggjast á eitt og fylgja í hvívetna fyrirmælum yfirvalda. Þar er enginn undanskilinn, hvorki almenningur né fyrirtæki,“ segir Gunnar

„Veitingastaðurinn sjálfur er vissulega ekki eins þéttsetinn í hádeginu og á kvöldin og undir eðlilegum kringumstæðum en aukningin í fyrirtækjapöntunum er í kringum 200%.”

Hann segir ennfremur að XO bjóði upp á ókeypis heimsendingu til fyrirtækja nú sem endranær og hefur það mælst sérstaklega vel fyrir í því ástandi sem nú ríkir. Staðurinn bjóði jafnframt nýtt tilboð þar sem allir réttir eru á einu verði, 1.800 krónum.

Veltan á XO jókst um 8,5% í janúar og 14,9% í febrúar frá fyrra ári og væntingar stóðu til þess að sú þróun myndi halda áfram en XO stefnir að lágmarki á 10% árlegan vöxt og hefur það verið eitt af upphaflegum markmiðum félagsins.

„Það er okkar trú að fólk sé almennt að færa sig meira í heilsusamlegra mataræði og hugi að hreyfingu enda er öll umræða í þá veru hér heima sem og erlendis. Þar teljum við að hollari valkostur í skyndibita sé engin undantekning”, segir Gunnar. „Við munum sigrast á þessum vágesti, í sameiningu öll sem eitt.“