Á sama tíma og afkoma útgerða og vinnslufyrirtækja í botnfiski hefur versnað hlutfallslega meira í Norðvesturkjördæmi en annars staðar hafa veiðigjöld útgerða á Vestfjörðum þrefaldast á milli ára. Þetta kemur fram í greiningu Deloitte á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja í kjördæminu sem Morgunblaðið fjallar um fyrir árin 2016 og 2017.

Aðalsteinn Óskarsson sviðstjóri byggjasviðs Vestfjarðastofu segir afkomuna verri þá sérstaklega í botnfiskveiðum en fyrirtæki sem stundi þær komi verr út en þau sem eru í uppsjávarveiðum.

Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Norðurlandi lýstu í framhaldi greiningarinnar áhyggjum á áhrifum veiðigjaldanna á litlar og meðalstórar útgerðir sem eigi nú margar í rekstrarerfiðleikum.

Segir þar að vestfirskar útgerðir hafi þurft að greiða 923 milljónir í veiðigjöld fyrir síðasta fiskveiðiár sem er þreföldun frá fyrra ári. Þetta gerist á sama tíma og afkoman dróst saman um 80% en veiðigjöld eru miðuð við afkomuna fyrir tveimur árum.

Aðalsteinn segir gott árferði fyrir tveimur árum koma mjög harkalega niður á fyrirtækjunum í ár.

„Þó svo að í einhverjum draumaheimi eigi menn að búa í haginn, þá hafa þeir um leið lent í því að gengi krónu hefur hækkað mjög, ásamt því að erfiðleikar hafa verið á mörkuðum erlendis, og ekki síst hefur kostnaður og laun þar með talin hækkað mikið. Þessar breytingar hafa í raun étið upp það sem menn reyndu að halda til hliðar,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir útgerðarmenn á svæðinu langþreytta á því gjaldtöku úr byggðarlaginu sem hverfi inn í ríkissjóðinn fyrir sunnan. Vísar hann í rannsóknir sem sýni að önnur hver króna sem íbúar landsbyggðar greiði í skatta verði eftir í Reykjavík, en hinn helmingurinn fari til ríkisútgjalda á landsbyggðinni.

„Einn útgerðarmaður sem ég þekki orðaði það þannig að hann vildi ekki lengur vinna fyrir ríkið,“ segir Aðalsteinn sem óttast að ruðningsáhrifin af veiðigjöldunum verði þau að kvótinn hverfi úr byggðarlaginu.

„Margir útgerðarmenn hafa nefnt það við mig að þeir gætu kannski þolað þessa gjaldtöku ef þeir sæju peninginn renna aftur til baka í nærumhverfið og til eflingar því – ef peningurinn færi sannanlega í uppbyggingu innan svæðisins og sveitarfélagsins.“