Enn hefur engin niðustaða fengist í sameiningarviðræður MP banka og Straums fjárfestingabanka og standa óformlegar viðræður milli bankanna enn yfir. Þetta segja Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, og Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums í samtali við Viðskiptablaðið.

Líkt og greint var frá í lok janúar hafa MP banki og Straumur átt í óformlegum sameiningarviðræðum. „Ég held að það hafi nú komið fram að það sé áhugi og það er verið að skoða það, en það liggur ekkert fyrir ennþá,“ segir Sigurður Atli. Hann segir hins vegar að vel geti verið að tilkynning komi á næstunni en hvorki sé búið að bera neitt undir hluthafa né skrifa undir nokkra pappíra.

Aðspurður hvort viðræðurnar séu komnar á það stig að þær teljist formlegar segir Sigurður Atli að svo sé ekki. „Það er ekki hægt að segja það, þetta er ekki komið á það stig ennþá.“

Jakob tekur í sama streng. „Ég held það sé fátt nýtt búið að gerast síðan síðustu fréttir voru fluttar um málið, svo það er því miður lítið sem ég get sagt þér núna,“ segir hann í samtali við blaðamann.