Þreifingar hafa átt sér stað á milli hagsmunasamtaka íslensks atvinnulífs um að taka upp nánara samstarf en tíðkast hefur og hagræða í rekstri hinna margvíslegu samtaka sem fyrirtæki í landinu greiða félagsgjöld.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þar kemur fram að ein hugmynd sem rædd hefur verið er að mynduð verði sameiginleg hagdeild atvinnulífsins sem hefði sambærilegan slagkraft og leiðandi stofnanir hins opinbera, en flest samtökin hafa hagfræðinga á sínum snærum. Ein hugmynd sem rædd hefur verið er að hagsmunasamtök atvinnulífsins vinni sameiginlega að ákveðnum málum og hefur til dæmis verið litið til greiningar á efnahagsmálum

Búið er að þreifa á öllum þeim samtökum sem sinna málefnum atvinnurekenda. Þannig hafa sjö aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands, Félag atvinnurekenda, Bílgreinasambandið og Kaupmannasamtök Íslands verið spurð um áhuga.

Formenn Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs staðfesta í samtali við Fréttablaðið að þreifingar hafi átt sér stað en gefa þó lítið upp um þróun eða stöðu þeirra.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem rætt er um frekari samstarf eða sameiningu á þessu sviði. Árið 2009 fóru fram viðræður á milli SA og Viðskiptaráðs um sameiningu en ekkert varð úr þeim þá.