„»Já, það eru þreifingar á milli aðila. Það er ekki komið í neitt formlegt ferli en það hafa verið þreifingar,“ segir Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála hjá Landsbankanum, um það hvort vinna standi yfir við að lengja í fjármögnun bankans.

Seðlabanki Íslands benti á í riti sínu, Fjármálastöðugleika, í síðustu viku að afborgunarferill skuldabréfa á milli gamla og nýja Landsbankans væri of þungur fyrir hagkerfið og það yrði að lengja í þeim eða endurfjármagna. „Við höfum svo sem alveg tímann fyrir okkur í því en það væri gott fyrir alla aðila [að lengt sé í lánum] svo að það þurfi ekkert að efast um endurfjármögnunaráhættuna,“ segir Hreiðar sem svarar því til að hvort tveggja sé enn opið, það er að lengt sé í lánunum og að farið verði í endurfjármögnun.

„Okkur er í sjálfu sér heimilt að greiða upp skuldina hvenær sem er. Ef hagstæð ytri fjármögnun er í boði þá er það ekkert verri kostur heldur en að lengja í þeim. Það er bara eitthvað sem er opið.“ segir Hreiðar.