Advania tilkynnti á þriðjudag fyrirhuguð kaup á norræna tæknifyrirtækinu Visolit. Áætlað er að kaupin verði frágengin fyrir árslok en þau eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Noregi og Svíþjóð. Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, kveðst spenntur fyrir því að máta lausnir Visolit við íslenska markaðinn.

„Íslenskir viðskiptavinir okkar munu klárlega njóta þess að fá aukinn kraft í þá framþróun sem hefur verið í gangi. Visolit hefur verið að þróa sérstakar lausnir á liðnum árum sniðnar að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem gætu hentað íslenska markaðnum alveg gríðarlega vel, enda eru flest íslensk fyrirtæki lítil og meðalstór í alþjóðlegum samanburði. Ég er mjög spenntur fyrir því að kynnast þessum lausnum betur og skoða tækifærin sem í þeim felast," segir Ægir.

Áhrif samrunans verða að öðru leyti takmörkuð hér á landi, en öllu meiri í Noregi og Svíþjóð. „Bein áhrif samrunans eru ekkert sérstaklega mikil hér á landi í samanburði við Noreg og Svíþjóð. Visolit er auðvitað ekki með neina starfsemi hér á landi sem sameinast starfsemi Advania á Íslandi, en starfsmannafjöldi Advania í Noregi mun aftur á móti tífaldast, fara úr 55 starfsmönnum í 600, og í Svíþjóð mun starfsmannafjöldinn nánast tvöfaldast."

Visolit hefur verið leiðandi á sviði upplýsingatækni og skýjalausna á fyrirtækjamarkaði í Noregi og Svíþjóð og segir Ægir félagið öflugast í rekstrarþjónustu.

„Visolit starfar ekki á eins breiðum grundvelli og Advania, það er öflugast í rekstrarþjónustu en við hjá Advania höfum verið að styrkja okkur einna mest á því sviði og miðum að því að vera þar fremst í flokki. Visolit er jafnframt með mjög flott teymi sérfræðinga á háu stigi í flóknari tækni- og hugbúnaðarmálum."

Mikill metnaður Goldman

Fyrr á árinu varð breyting á hluthafahópi Advania-samstæðunnar þegar sjóður í eigu fjárfestingarbankans Goldman Sachs varð meirihlutaeigandi samstæðunnar.

„Á meðal markmiða sem sett voru fram með nýjum eigendum var að tvöfalda samstæðuna á næstu þremur til fjórum árum. Í mínum huga er það því nokkuð merkilegt að vera komin svo nálægt því á um sex mánuðum. Þegar Goldman ákvað að koma inn í félagið var meðal annars litið til sögu okkar hingað til, en þær sameiningar sem við höfum ráðist í hafa allar verið árangursríkar, sem ber með sér að það býr heilmikil geta í félaginu í þeim efnum. Visolitkaupin voru þannig liður í þeirri stefnu sem Goldman lagði upp með og hæpið að þau hefðu gerst án aðkomu sjóðsins, að minnsta kosti með þeim hætti sem þau urðu," segir Ægir. Hann segir að viðbúið sé að nýjum eigendum fylgi nýjar áherslur og þær hafi hingað til verið jákvæðar.

„Það er til dæmis lögð mjög rík áhersla á gott og mikið utanumhald og að mínu mati skilar þetta sér í aðeins meiri aga í rekstrinum. Þetta á ekki einungis við á sviði fjárhagslegra mælikvarða, heldur einnig á sviði sjálfbærni og öryggismála. Ég finn fyrir miklum metnaði nýrra eigenda og hef upplifað aðkomu þeirra hingað til með mjög jákvæðum hætti."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .