Velta í fataverslun hefur dregist saman um 43% að raunvirði frá því í október árið 2007 og fram til síðasta mánaðar, samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst. Rannsóknasetrið segir um veltu í smásölu verslun með föt hafa átt erfitt uppdráttar eftir hrun. Verð á fötum hefur samt ekki hækkað umfram almennar verðlagsbreytingar síðasta árið.

Velta í fataverslun dróst saman um 16,2% á föstu verðlagi á milli ára í otkóber og minnkaði um hún um 12,7% á breytilegu verðlagi. Verð á fötum hækkaði um 4,2% á milli ára, samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Færri kaupa húsgögn nú

Á sama tíma virðist sem landsmenn endurnýi húsgögn sín í minna mæli nú en fyrir hrun ef marka má þann samdrátt sem hefur átt sér stað í húsgagnaverslun. Á því fimm ára tímabili sem nefnt var hefur velta húsgagnaverslana dregist saman um 62% að raunvirði. Sérverslanir með rúm hafa þó heldur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu því sala á rúmum var 10% meiri fyrstu 10 mánuði þessa árs en á sama tímabili í fyrra.

Velta dagvöruverslunar breytist ekki mikið. Veltan í þeim flokki jókst um 1% á fyrstu 10 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Sama er að segja um sölu áfengis sem jókst um 0,3% að raunvirði það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra.

Fleiri endurnýja raftækin

Meiri endurnýjunarþörf virðist vera í raftækjum en í annarri sérvöru þar sem veltan eykst jafnt og þétt og er á góðri leið með að ná sama umfangi og var fyrir hrun. Velta í raftækjaverslun í október var 3,6% minni en í október árið 2008 en fer vaxandi og jókst um 15% á síðustu tólf mánuðum. Bent er á í umfjöllun Rannsóknasetursins að verð á raftækjum er lægra nú en fyrir ári. ifröst.

Í vísitölunni kemur fram að velta í dagvöruverslun jókst um 0,3% á föstu verðlagi á milli ára í október. Á breytilegu verðlagi jókst hún um 5,1%. Verð á dagvöru hefur hækkað um 4,7% á síðastliðnum 12 mánuðum, samkvæmt samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.