Samdráttur varð í veltu á heildsölumarkaði á síðasta ári og dróst hagnaður nokkurra heildsala saman. Síðasta ár reyndist íslenskri verslun erfið vegna hægari fjölgunar ferðamanna og breyttrar neysluhegðunar þeirra, aukinnar samkeppni á smásölumarkaði, styrkingar krónunnar og launahækkana.

Íslensk-Ameríska (ÍSAM), önnur veltumesta heildverslun landsins á eftir Innnes, tapaði 301 milljón króna á síðasta ári. Árið áður hagnaðist félagið um 262 milljónir. Velta ÍSAM nam um 12 milljörðum króna og dróst saman um 3,2%, eða tæplega 400 milljónir milli ára. ÍSAM flytur inn þekkt bandarísk vörumerki, meðal annars vörur frá Procter & Gamble. Innan samstæðunnar eru jafnframt íslensku framleiðslufyrirtækin Myllan, Ora, Frón og Kexsmiðjan. Ársreikningur Innness fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir.

Ásbjörn Ólafsson, sem er heildverslun með búsáhöld, matvöru, fatnað, bílavörur og fleira, hagnaðist um 9,3 milljónir samanborið við rúmlega 180 milljónir árið á undan. Dróst hagnaður félagsins því saman um 92% milli ára. Fyrirtækið velti 2,1 milljarði og dróst veltan saman um tæplega 130 milljónir milli ára.

Rekstrarvörur, sem flytur inn og selur hreinlætis-, hjúkrunar- og rekstrarvörur, hagnaðist um 103,7 milljónir í fyrra, samanborið við rúmlega 180 milljónir árið á undan. Velta félagsins nam tæplega 2,2 milljörðum og dróst saman um 8,4% milli ára eða rúmlega 200 milljónir króna.

Í almennri heildverslun, að undanskilinni verslun með vélknúin ökutæki, nam veltan rúmlega 659 milljörðum króna. Dróst veltan saman um 4,2% milli ára að raunvirði. Heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak nam rúmlega 186 milljörðum og dróst saman um tæp 13% milli ára að raunvirði, en svo mikill samdráttur milli ára hefur ekki sést í meira en áratug. Er veltan í takt við minnkandi umsvif í hagkerfinu, en hagvöxtur í fyrra var 3,6% borið saman við 7,5% árið áður.

Costco haft afgerandi áhrif

Í ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands fyrir síðasta ár kemur fram að breytingar á smásölumarkaði og launahækkanir hafi haft neikvæð áhrif á veltu og afkomu fyrirtækisins, meðal annars í heildsölu. SS framleiðir kjötafurðir, en er einnig stór heildsali. Fyrirtækið flytur meðal annars inn og selur smásölufyrirtækjum vörur frá Mars, Barilla, McCormick og Uncle Ben’s.

Ein stærsta breytingin sem átti sér stað á smásölumarkaði á síðasta ári var tilkoma bandaríska verslunarrisans Costco. Viðbúið var að Costco myndi hrista upp í íslenskri verslun, enda önnur stærsta smásöluverslunarkeðja í heimi með breitt vöruframboð.

Fyrir og eftir að Costco opnaði vöruhús sitt í Kauptúni í Garðabæ sömdu margir stórir heildsalar og matvælaframleiðendur á borð við SS og Ölgerðin við erlenda birgja um lægra innkaupsverð á ákveðnum vörum til að bregðast við verðsamkeppni frá Costco. Ölgerðin er einn stærsti drykkjarvöruframleiðandi og heildsali landsins, sem flytur inn og selur meðal annars vörur frá Merrild, Nestlé, Doritos, Maryland, L’Oreal og Maybelline.

Til marks um hagræðingu á þessu sviði lækkaði kostnaðarverð seldra vara um 362 milljónir króna hjá ÍSAM í fyrra og 30 milljónir hjá Ásbirni Ólafssyni.

Endursamningar við erlenda birgja voru einnig varnarviðbrögð við því að veitingahús, bakarí, smærri verslanir og framleiðendur færu að sneiða framhjá innlendri heildsölu og beina viðskiptum sínum í auknum mæli til Costco með kaupum á ódýrari vörum til endursölu eða framleiðslu. Má þar nefna Verslunina Einar Ólafsson og vínbarinn Port 9 sem dæmi. Áhrif Costco á heildsöluaðila hafa þannig verið bein en einnig óbein vegna sölusamdráttar hjá verslanasamstæðum á borð við Haga og Samkaup.

Jafnframt átti sér stað sú breyting á eftirspurnarhliðinni að hægja tók á fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi í fyrsta skipti frá því að uppsveiflan í ferðaþjónustunni hófst árið 2010. Neyslumynstur þeirra breyttist einnig með þeim hætti að þeir fóru að eyða minna og dvelja skemur en áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .