Verkefni sem efla félagsauð, fegra mannlífið, styrkja samstarf íbúa og stuðla að fegurri ásýnd borgarhverfa eru meðal verkefna sem Hverfissjóður Reykjavíkur hefur ákveðið að styrkja á þessu ári. Alls bárust 28 umsóknir fyrir tilskilinn tíma og var rúmum fjórum milljónum króna úthlutað til þrettán verkefna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Af þeim verkefnum sem hlutu stuðning má nefna „Borgarbýli í Reykjavík“ en það er uppbygging sjálfbærs og samvinnurekins borgarbýlis með innihúsræktun og námskeið í heilnæmum lífsstíl. Þar er um að ræða langtímaverkefni sem á að byggja upp samfélagslega ábyrgð, samhug og félagsanda.

Annað verkefni sem einnig tengist aukinni umhverfisvitund er „Blómin á þakinu“ en það felst í að setja upp aðstöðu, gróðurhús og blómakassa fyrir börn í Austurbæjarskóla og fjölskyldur þeirra til garðræktar. Hugmyndin er að börn læri að umgangast blóm og plöntur sem áhugamál og nytjavöru.

Viðburðir sem fengu brautargengi eru vorhátíð Austurbæjarskóla, hverfahátíð og hreinsunardagur í Úlfarsárdal, sumarhátíð Árbæjar, útimarkaður í Laugardal og tónleikar á Klambratúni. Samstarf og sameiginleg kynning á framboði tómstundastarfs í Grafarholti og Árbæ var einnig styrkt, sem og kynningarátak Leiknis í Breiðholti. Hverfissjóður Reykjavíkur byggir á samfélagssjóði SPRON sem var færður borginni til varðveislu og úthlutunar.