Tillögum nefndar um viðbrögð við dómum Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í skattamálum er varða Ísland var skilað fyrir rúmum tveimur mánuðum. Ríflega þrjátíu mánuðir hafa liðið frá dómi MDE í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Nokkurs leiða virðist gæta, meðal þeirra sem að skattamálum koma, með þá stöðu sem uppi er.

Hér á landi hefur það tíðkast um árabil að meðferð skattamála hefur bæði farið fram á stjórnsýslustigi, þá hjá Ríkisskattstjóra (RSK) og yfirskattanefnd (YSKN), og síðan, ef tilefni þykir til, eru þau send til ákæruvalds. Á stjórnsýslustigi hefur verið heimilt að gera einstaklingum og félögum að greiða sérstakt álag á vantalinn skattstofn eða sektir. Í framkvæmd hafa þær sektir verið dregnar frá sektum fyrir dómstólum ef til sakfellingar kemur þar.

Síðla árs 2016 féll dómur gegn norskum stjórnvöldum þar sem lína var dregin í sandinn en ekki var talið að um brot hefði verið að ræða þar. Komist var að öndverðri niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva. Síðan þá hafa tveir sambærilegir dómar fallið ytra í málum gegn Íslandi, annars vegar í máli Ragnars Þórissonar og hins vegar í máli Bjarna Ármannssonar.

Niðurstaða MDE í málinu fól þó ekki í sér að hin tvíþætta málsmeðferð væri sjálfkrafa í andstöðu við Mannrétindasáttmála Evrópu (MSE) í öllum tilfellum. Til að slík meðferð stæðist MSE þyrfti að meta hvert tilvik fyrir sig og málsmeðferðin á stjórnsýsluog ákærustigi að vera nægjanlega samþætt í tíma og efni. Fyrsta málið eftir hinum nýju viðmiðum var dæmt í Hæstarétti, í fullskipuðu sjö dómara máli, í september 2017 og komist að því að málsmeðferðin hefði staðist skilyrði MSE og MDE. Sú niðurstaða hefur verið kærð til Strassborg og hefur málið verið í sáttameðferð fyrir dómstólnum.

Á vormánuðum þessa árs, um tveimur vikum eftir að dómur féll í Strassborg, skipaði dómsmálaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að gera tillögur að viðbrögðum vegna dóma MDE. Í nefndinni sátu meðal annars ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, vararíkissaksóknari og Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara. Vinna nefndarinnar byggði að hluta á vinnu nefndar sem skilaði tillögum árið 2013.

„Ég get lítið sagt til um tillögur nefndarinnar á þessu stigi en nefndinni var falið að reyna að finna lausn á þessu vandamáli. Undanfarið höfum við sem að þessum málaflokki komum reynt að finna út úr því hvernig við eigum að feta okkur áfram í kjölfar dómanna,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri.

„Þegar niðurstöður dómstóla eru lesnar getur verið að menn lesi ekki sama hlutinn úr þeim. Meginstefnan verður að vera skýr svo unnt sé að meta hvaða áhrif málin hafa á hliðstæð tilvik. Nú liggur „samþættingarprófið“ fyrir en einn eða tveir dómar svara því ekki nákvæmlega hvar mörkin liggja endanlega,“ segir Snorri.

Stærri málin falla á prófinu

„Nefndin hefur skilað tillögum sínum til ráðherra og þar er boltinn nú. Frá okkar bæjardyrum er grundvallaratriði að þessi mál fái viðeigandi meðferð innan kerfisins,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Bryndís segir að í framkvæmd séu það stærstu og alvarlegustu málin, sem séu þung og umfangsmikil, sem hafi verið að falla á prófinu, fyrst og fremst vegna þess tíma sem tekur að fara yfir þau. Reyndin sé að nokkuð flókið sé að stíga þær vegstikur sem MDE hefur mótað. Til að mynda voru tugir mála mál felldir niður eftir að dómur Hæstaréttar í september 2017 lá fyrir. Samanlagður skattstofn í þeim málum var um sextíu milljarðar króna. Minni mál, þau sem auðveldara sé að afgreiða, falli hins vegar sjaldnar á prófinu.

„Við getum ekki verið í þeirri stöðu til lengdar að alvarlegustu skattsvikamálin sæta ekki ákærumeðferð. Þetta er ólíðandi fyrir alla aðila, bæði fyrir þá sem sæta rannsókn, og sæta að að málsmeðferð sem kannski stenst ekki kröfur MDE og MSE, sem og fyrir stjórnvöld. Eins og staðan er nú er hætta á að ójafnræði verði við afgreiðslu mála. Ef brot hefur verið framið þá þarf kerfið og ferlið að vera slíkt að tryggt sé að viðkomandi fái viðunandi refsingu,“ segir Bryndís.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .