Mitt verkefni er að byggja upp sölu- og dreifingarnet fyrir Play á alþjóðlegum skala. Fyrst um sinn verður þetta kynningarstarf á mörkuðum sem við fljúgum núna til eða fyrirhugað er að fljúga til í náinni framtíð. Einnig fæ ég það hlutverk að styrkja sölu- og dreifingarteymið okkar og innleiða þær lausnir sem við teljum nauðsynlegar til að ná okkar markmiðum,“ segir Tatiana Shirokova, nýr forstöðumaður sölusviðs hjá Play.

Hún starfaði hjá Icelandair síðastliðin fjögur ár, síðast sem sölustjóri á alþjóðlegum mörkuðum. Tatiana segir að það séu líkindi með störfunum en bætir við að hún komi til með að spila stærra hlutverk hjá Play.

Alls á Tatiana tuttugu ára feril að baki í ferðamannaiðnaðinum þar sem hún hefur að mestu gegnt sölustörfum, þó með nokkrum undantekningum. Hún starfaði í tæplega þrjú ár sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Dohop. Þar fékkst hún við að fjölga flugfélögum í leitarniðurstöðum hjá bókunarsíðunni og bæta þar með valkosti notenda. Þar að auki hefur hún unnið fyrir samtökin GBTA, bresku ferðaskrifstofuna Discover the World, Thai Airways ásamt British Airways.

Ferill hennar hefur því falist í stanslausum ferðalögum um heiminn og það komu mánuðir þar sem hún dvaldi lengur erlendis en í heimalandi sínu í Rússlandi. Tatiana segist þó elska að ferðast og bindur vonir við að flugheimurinn fari að komast aftur í eðlilegt horf. Af ferðalögum sínum stóð Suður-Afríka upp úr en hún er einnig afar hrifin af Suður-Frakklandi. Þá er á listanum hjá henni að ferðast til Suður-Ameríku og Grænlands í framtíðinni.

Tatiana hafði lengi horft til þess að ferðast til Íslands og kom að lokum hingað í vinnuferð fyrir rúmum áratug. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Ivari Thorsteinssyni í gleðskap hjá sameiginlegum vini. Hún flutti svo til Íslands fyrir átta árum til að búa með Ivari, sem starfar í dag sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Reon. Þau eignuðust son, Birki Leó, í janúar 2020 en stuttu seinna voru lagðar samkomutakmarkanir vegna Covid.

„Þetta var sérkennilegur tími og við héldum okkur að mestu heima. Strákurinn okkar umgekkst því ekki annað fólk í nokkurn tíma. Hann var því undrandi að sjá önnur andlit nokkrum mánuðum síðar,“ segir Tatina.

Í frítíma sínum finnst henni gaman að fara í fjallgöngur. Tatiana segir að hún hafi ekki kynnst því áhugamáli fyrr en eftir að hún flutti til Íslands og reynir nú að fara upp á fjöll við hvert tækifæri.