*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 21. september 2020 16:07

Úrvalsvísitalan lækkar um 2,12%

Alls lækkuðu átján félög af þeim tuttugu sem skráð eru í íslensku kauphöllinni. Mest lækkuðu bréf Sýnar um 4,46%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ekkert félag í íslensku kauphöllinni hækkaði í virði í viðskiptum dagsins á sama tíma og þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins er hafin. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 2,12% og stendur í 2.094 stigum. Vísitalan náði sögulegu hámarki fyrir um tveimur vikum þegar hún braut 2.200 stiga múrinn.

Mest lækkuðu hlutabréf Sýnar um 4,46% í ellefu milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í tæplega 29 krónum en þau hafa hækkað um tæplega fjórðung síðasta mánuðinn en lækkað um fimmtung á þessu ári. Markaðsvirði Sýnar er tæplega níu milljarðar króna eftir lokun markaða.

Sjá einnig: Heiðar sneri tapi í hagnað

Mikil lækkun var á hlutabréfum fasteignafélaganna. Næst mest lækkun var á bréfum Regins um 3,33% í 137 milljóna króna viðskiptum. Þau standa í tæplega sextán krónum hvert en fóru lægst á þessu ári í ríflega 13,5 krónur í síðasta mánuði. Þriðja mest lækkun var á hlutabréfum Reita um tæplega þrjú prósent en bréf Eikar lækkuðu um 1,91%.

Mest velta var með bréf Marel sem lækkuðu um 2,14% og standa í 685 krónum. Hlutabréf félagsins hafa ekki verið jafn lág síðan um miðjan ágúst. Næst mest velta var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 2,3% og standa í 74,5 krónum.

Styrkist gagnvart norsku krónunni en veikist gagnvart Bandaríkjadal 

Mest lækkaði gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal um 1,31% sem fæst á ríflega 138 krónur. Krónan veiktist gagnvart evru um fjórðung af prósentu og við japanska jenið um 1,1% sem fæst á ríflega 1,3 krónur.

Krónan styrktist hins vegar gagnvart þeirri norsku um 1,55% og þeirri sænsku um 0,09%. Það sem af er ári hefur krónan veikst gagnvart Bandaríkjadal um ríflega tólf prósent og gagnvart evru um ríflega átján prósent.