Reza Mirza var fyrr í mánuðinum ráðinn forstjóri Icelandic Water Holdings samstæðunnar, en hann hefur starfað sem forstjóri Icelandic Glacial í Bandaríkjunum frá árinu 2014. Hann segir að með nýrri stöðu innan samstæðunnar muni hann í auknum mæli fylgjast með framleiðslunni. „Það eru margir spennandi hlutir að eiga sér stað í framleiðslunni hjá okkur á næstu misserum. Við stefnum til að mynda á að framleiða vatn í áldósum á fyrri hluta næsta árs.“

Icelandic Glacial er nú þriðja stærsta innflutta eðalvatnið á Bandaríkjamarkaði. „Fyrir átta árum voru Fiji, Evian, Voss, Acqua Panna og Volvic öll vinsælli á Bandaríkjamarkaði. Í dag eru Fiji og Evian einu innfluttu eðalvötnin fyrir ofan okkur. Við erum nú að selja töluvert meira en vörumerki á borð við Voss, Acqua Panna og Volvic,“ segir Reza.

Þrátt fyrir þetta hefur félagið varið töluvert lægri fjárhæðum í markaðsstarf samanborið við samkeppnisaðilana. „Við höfum gert hlutina öðruvísi þar sem við höfum ekki haft sömu fjárhæðir til umráða og samkeppnisaðilarnir. Á meðan það er áætlað að Fiji verji 50 milljónum dala á ári í sjónvarpsauglýsingar, þá höfum við varið 1,5 milljónum dala á ári í allt okkar markaðsstarf. Við höfum náð að byggja upp ímynd Íslands og náð að selja hreinleika Íslands í flösku,“ segir Reza.

Þegar Reza er spurður út í það hvernig Icelandic Glacial geti keppt við samkeppnisaðila sem verja margfalt hærri fjárhæðum í markaðsstarf nefnir Reza þrjá lykilþætti. Í fyrsta lagi sé eðalvatnið hágæða vara. Í öðru lagi nefnir hann hönnun flöskunnar sem standi út í hillum verslana. „Í þriðja lagi höfum við byggt upp heimsklassa teymi hjá félaginu. Það er í raun leynivopnið okkar.“

Áldósirnar veiti samkeppnisforskot

„Sjálfbærni er orðið að stóru umfangsefni hjá fyrirtækjum í heimshagkerfinu. Við höfum lagt okkur fram um að bjóða upp á fjölbreyttar vörur fyrir fólk sem er umhugað um umhverfið. Við bjóðum meðal annars upp á glerflöskur og erum að byrja með áldósir á fyrsta ársfjórðungi næsta árs,“ segir Reza. Hann segir að stefna félagsins sé að auka hlutfall endurvinnanlegs plasts í vörum félagsins. „Plastflöskurnar okkar eru núna 12-15% endurvinnanlegar. Við viljum koma hlutfallinu upp í 50% og einn daginn upp í 100%.“

Reza segir að fyrirhugaðar áldósir á vegum félagsins muni veita þeim samkeppnisforskot. „Viðhorfið í samfélaginu er þannig að það sé auðveldara að endurvinna ál og að það sé betra fyrir umhverfið en plast. Mín persónulega skoðun er sú að PET1, plastið sem við notum í flöskurnar okkar, er líka frábær vara ef þú endurvinnur hana.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.