Um 300 manns eru í sóttkví á Íslandi samhliða því að þriðja tilfelli Covid-19 veirunnar, sem kennd hefur verið við upprunaborgina Wuhan í Kína, hefur verið staðfest hér á landi að því er Morgunblaðið greinir frá.

Fyrsta tilfellið greyndist fyrir helgi þegar íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri var færður í einangrun á Landspítala í kjölfar þess að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir veirunni. Samkvæmt landlækni var hann þó ekki alvarlega veikur en sýndi dæmigerð einkenni sem eru hósti, hiti og beinverkir.

Annað og þriðja tilfellið voru svo staðfest í gær, sunnudag, kona og karl, sem höfðu, líkt og í fyrsta tilfellinu verið stödd á Norður Ítalíu. Karlmaðurinn kom hingað til lands frá Veróna á Ítalíu en konan kom frá München í Þýskalandi.

Öll þrjú eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og er líðan þeirra tveggja síðarnefndu einnig sögð góð, utan hinna dæmigerðu einkenna. Af þessum sökum eru nú um 300 manns í sóttkví hér á landi.

Hér má lesa frekari fréttir um áhrif kórónaveirunnar Covid-19 frá Wuhan:

Hér má lesa skoðanapistla um áhrif vírusins: