Þriðji aðili, Bílar og fólk, íhugar að hefja akstur á leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins ef innanríkisráðuneytið tekur undir með Samkeppniseftirlitinu sem lagðist gegn einkaleyfi á áætlunarferðum á þessari leið. Þetta kemur fram á vef Túrista.is .

Sex fyrirtæki tóku þátt í útboði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um akstur á þessari leið en útboðið var kært. Samkeppniseftirlitið úrskurðaði að stöðva þyrfti áform um einokun í áætlunarakstri á leiðinni. Tilmælum var beint til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar að leita þegar í stað allra leiða til þess að stöðva áform Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um að koma á einokun á áætlunarleiðinni milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur eins og segir í frétt Túrista.

Haft er eftir Óskari Stefánssyni, framkvæmdastjóra Bíla og fólks, sem átti næst lægsta tilboðið í útboðinu að fyrirtækið íhugi að hefja áætlunarferðir á næsta ári á leiðinni.

Fyrir ári síðan var tekið fyrir akstur áætlunarbifreiða við Leifsstöð og þurfa farþegar sem vilja nýta sér almenningssamgöngur að ganga yfir skammtímabílastæðið til að komast um borð í rútu. Í útboðsgögnum á einkaleyfinu er gert ráð fyrir því að sá sem hneppir hnossið fá sérstæði við enda flugstöðvarinnar fyrir rútur sínar. Stæðið er ekki í notkun í dag og samkvæmt svari frá Isavia við fyrirspurn Túrista.is þá er beðið eftir ákvörðun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar varðandi næstu skref í útboðsmálunum.