Hagnaður Eimskips á þriðja ársfjórðungi var 7,5 milljónir evra og jókst um 2,4 milljónir evra frá sama ársfjórðungi í fyrra. EBITDA nam 12,6 milljónum evra og hækkaði um 0,5 milljónir evra milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu 119,6 milljónum evra og jukust um 6,1 milljón evra frá þriðja ársfórðungi 2013. Þá jókst flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi um 7,3% og flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun um 19,2% frá fyrra ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 64,0% við lok þriðja ársfjórðungs og nettóskuldir námu 32,3 milljónum evra.

Í afkomutilkynningu er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að þriðji ársfjórðungur sé besti ársfjórðungur frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA og hagnað eftir skatta. Bætt afkoma skýrist aðallega af auknu flutningsmagni til og frá landinu, einkum vegna flutninga á bifreiðum, byggingarvörum og makríl.