Flest eigendaskipti bifreiða á síðustu tíu árum fóru fram á árinu 2007 þegar yfir 104 þúsund bifreiða skiptu um hendur. Þetta kemur fram í gögnum frá Umferðarstofu. Fjöldi eigendaskipta virðist yfirleitt detta niður í kringum áramót. Í janúar 2013 voru eigendaskipti 6.291 og hafa ekki verið fleiri í janúar síðan 2008.

Þriðji hver seldur

Fjöldi eigendaskipta á síðasta ári var yfir 86 þúsund talsins en var um 99 þúsund árið 2011. Óvenju mikill fjöldi eigendaskipta var reyndar í desember 2011 þegar yfir 25 þúsund bifreiðar skiptu um eiganda. Þetta var vegna sameiningar SP fjármögnunar og Avant við Landsbankann. Sé litið framhjá þessum fjölda þarf að líta aftur til ársins 2007 til að finna jafn margar skráningar um eigendaskipti bifreiða hér á landi.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru skráð ökutæki um 223 þúsund árið 2003 en fóru hæst upp í rúmlega 301 þúsund árið 2008. Nýjustu tölur eru fyrir árið 2011 en þá voru tæplega 299 þúsund ökutæki skráð hér á landi. Á árunum 2003 til 2007 voru eigendaskipti um 33%-38% af skráðum ökutækjum hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.