Yfir 42 þúsund lítrar af Víking sumaröli hafa selst í sumar og er varan uppseld hjá framleiðandanum Vífilfelli. Vinsældir sumarbjóra hafa farið vaxandi meðal íslenskra bjórunnenda og er Sumaröl langvinsælasti sumarbjór landsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Vífilfell framleiðir einnig sérstakan sumarbjór undir merkjum Einstök sem nefnist Arctic Berry Ale eða Norðurslóðaberjaöl og hafa sex þúsund lítrar selst af honum innanlands en sé útflutningur tekinn með í reikninginn hækkar lítrafjöldinn í alls 58 þúsund. Einstök Arctic Berry Ale verður í sölu til 1. október en samkvæmt reglugerð um árstíðabundna áfengisdrykki er sala sumarbjóra heimil í einn til þrjá mánuði á hverju ári.

Vífifell er stærsti bjórframleiðandi á Íslandi og þar af er Víking vörumerkið stærst, en þriðji hver bjór sem seldur er á Íslandi er Víking bjór. Einnig hefur Einstök bjórinn sem framleiddur er af Vífilfelli notið vaxandi markaðshlutdeildar.

Hreiðar Þór Jónsson, vörustjóri áfengis hjá Vífilfelli, segir veðurfar í ár ekki hafa jafn mikil áhrif og veðurfar í fyrra á sölu sumaröls og hefur salan verið mjög góð þrátt fyrir að sólardagarnir hafi verið fáir.