Íslenska fyrirtækið Guide to Iceland lenti í þriðja sæti í tæknifyrirtækjakeppninni Fast 500. Keppnin er milli fyrirtækja í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku og snýst um að kortleggja þau tæknifyrirtæki sem vaxa hraðast með tilliti til veltuaukningar á hverju fjögurra ára tímabili.,

Guide to Iceland er markaðstorg fyrir íslenska ferðaþjónustu og var stofnað árið 2012. Hjá Guide to Iceland starfa yfir 50 manns á Íslandi en það hefur líka höfuðstöðvar í Beijing, Kína og Kharkiv, Ukraínu.

,,Við erum auðvitað svolítið svekkt að hafa ekki unnið en fyrirtækin sem lentu í fyrsta og öðru sæti eru samt sem áður mjög sterk og við erum því ánægð og stolt af árangrinum," segir Xiaochen Tian, framkvæmdarstýra Guide to Iceland í tilkynningu. ,,Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það mikla starf sem við höfum staðið fyrir en 2017 hefur verið frábært ár fyrir okkur. Við vonum samt að Íslendingar geti verið stoltir af því að nýsköpunarfyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu sé að sýna þennan árangur á aljþóðavísu."

Guide to Iceland fyrr í haust sigrað Fast 50 á Íslandi líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um en sú keppni er eins konar undanfari Fast 500 keppninnar. Það er fyrirtækið Deloitte sem sér um útgáfu listans.

Guide to Iceland jók veltu sína á milli árana 2013 og 2016 um 30.314% og dugði það til þess að ná þriðja sætinu líkt og áður sagði. Breska fyrirtækið Deliveroo sigraði hins vegar keppnina í ár en það óx um 107.117% á tímabilinu. Þá var fjölmiðlafyrirtækið Lesara GmbH frá Þýskalandi í 2. sæti en það óx um 71.981%.

“Við óskum íslensku fyrirtækjunum innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Alþjóðlegur listi eins og EMEA Fast 500 fær mikla umfjöllun víðs vegar um heiminn og fyrirtækin sem komast á hann vekja verðskuldaða athygli alþjóðlegra aðila. Við erum afar stolt af þessum árangri íslensku Fast 50 fyrirtækjanna, þar sem Guide to Iceland er í sérflokki þetta árið, og hlökkum til að fylgjast með frekari afrekum þeirra og vexti í framtíðinni,” er haft eftir Sigurði Páli Haukssyni, forstjóra Deloitte á Íslandi í tilkynningu.