Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 14.763 milljónum króna í maí 2012 sem er 145,6% aukning frá fyrra mánuði. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Gjaldeyriskaup Seðlabankans nam 1.225 milljónum króna eða 8,3% af heildarveltu mánaðarins. Meðalgengi evrunnar gagnvart krónunni var 2,6% læra í maí en í fyrra mánuði.

Mesta veltan fór fram í byrjun mánaðarins, miðvikudaginn 2. maí og fimmtudaginn 3. maí, en þá nam veltan 2.887 milljónum fyrri daginn og 2.289 milljónum seinni daginn. Fyrri daginn námu kaup Seðlabankans 249 milljónum króna. Þá voru fimm dagar í mánuðinum sem veltan fór yfir milljarð króna, en Seðlabankinn keypti engan gjaldeyri á þeim dögum.

Að undanskildum miðvikudeginum 2. maí þá nýtti Seðlabankinn þriðjudaga eins og venja er til að kaupa gjaldeyri (markaðir voru lokaðir þriðjudaginn 1. maí). Þriðjudagana 8. maí, 15. maí, 22. maí og 29. maí keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 244 milljónir króna hvern dag.