Domino‘s á Íslandi hefur frá árinu 2010 boðið viðskiptavinum sínum upp á 1.000 krónu þriðjudagstilboð, sem felst í miðstærð af pítsu með þremur áleggstegundum. Nærri ellefu árum síðar hefur fyrirtækið ákveðið að hækka verð á tilboðinu um 10% og er nú komið í 1.100 krónur. Vísir greinir frá.

Haft er eftir Magnúsi Hafliðasyni, forstjóra Domino‘s, að fyrirtækið hafi ekki komist lengur hjá því að halda verðinu óbreyttu. Launavísitala og vísitala neysluverðs hafi hækkað um tugi prósenta frá því að tilboðið var fyrst tekið upp. „Ef þú myndir uppreikna verðið frá 2010 yrði verðið 1.400 krónur, ef við hefðum haldið í við verðlag,“ segir Magnús.

Hann heldur því þó fram að enn sé um að ræða einn besta díl í bænum. Tilboðið hafi á sínum tíma gjörbreytt landslaginu í íslenska skyndibitageiranum. „Áður fyrr var ekki til neitt sem hét þriðjudagstilboð. Þetta var konsept sem var ekki til. Í dag er nánast hægt að fá þriðjudagstilboð hvar sem er,“ hefur Vísir eftir Magnúsi. „Ég held að neytendur njóti bara góðs og þeir eru áfram vel settir, þó að tilboðið sé nú á 1.100 krónur í stað þúsund.“