Hagnaður Advania á Íslandi jókst um þriðjung á milli ára, úr 420 milljónum króna árið 2017 í 557 milljónir á síðasta ári, að því er Morgunblaðið greinir frá. Hagnaður fyrir skatta nam 713,2 milljónum króna, sem er aukning um 31,3% frá fyrra ári.

Tekjur Advania á Íslandi á árinu 2018 námu 15,1 milljarði króna og jukust um tæp 20% milli ára. EBITDA jókst á sama tíma um tæp 11% og nam 1,3 milljarði og rekstarahagnaður (EBIT) jókst um ríflega 24%, fór úr 633 milljónum króna árið 2017 í 787 milljónir krónur árið 2018.

„Á heildina litið er ég mjög sáttur við rekstrarniðurstöðu ársins, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að síðustu mánuðir ársins lituðust af óvissu í efnahagslífinu og kostnaðarhækkunum. Árangurinn skýrist fyrst og fremst af aukinni eftirspurn eftir þjónustu Advania,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

„Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir sjá tækifærin í að fela okkur heildarumsjón með rekstri sinna upplýsingakerfa. Eins var nýjum þjónustulausnum, svo sem frá Outsystems og Salesforce, mjög vel tekið á markaðnum. Til marks um gott gengi okkar valdi Microsoft Advania samstarfsaðila ársins annað árið í röð.“

Ægir Már bendir á að hægagangur í viðskiptalífinu á síðustu mánuðum ársins hafi haft áhrif á rekstur fyrirtækisins. „Þau neikvæðu áhrif héldu áfram fyrstu mánuði þessa árs. Ekki er útséð með hvaða áhrif nýir kjarasamningar munu hafa en óvissan í efnahagslífinu hefur minnkað,“ segir Ægir Már.

„Við merkjum jákvæðari tón í samtölum við okkar viðskiptavini. Þannig finnum við fyrir stóraukinni eftirspurn eftir ráðgjöf um stafræna stefnumótun, enda öllum orðið ljóst að snjöll notkun á upplýsingatækni er forsenda árangurs í rekstri. Við horfum því mjög björtum augum á komandi mánuði og árið í heild.“