Guðmundur Óskarsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands segir aukningu vera í innanlandsflugi.

„Það er aukning í innanlandsflugi, þegar við lítum á farþegafjölda, og það sem við sjáum líka er að fjöldi erlendra ferðamanna er að nota innanlandsflugið. Aukningin er í takt við fjölda ferðamanna og aukningu í fjölda þeirra til landsins,“ segir Guðmundur.

Ferðamönnum fjölgar meira

„Við erum að sjá aukningu á erlendum ferðamönnum um svona 30% frá síðasta sumri. Einnig er aukning meðal Íslendinga sem eru að ferðast með innanlandsflugi. Ekki jafn mikið eða um 5% aukning.

Svo erum við með Grænland líka, sem er bara svipað og 2015.“

Eru um fimmtungur heildarfjöldans

Flugfélag Íslands flýgur auk ferða til Grænlands til Ísafjarðar, Akureyrar og Egilsstaða.

„Akureyrarflugið er alltaf sterkast. Erlendir ferðamenn eru svona um 20% af heildarfarþegafjölda. Við erum að bjóða pakkaferðir, dagsferðir og þess konar, svo erum við einnig með fólk sem er bara að fljúga og taka bílaleigubíla,“ segir Guðmundur.

„Svo erum við með þetta inn í dreifikerfum, sem gerir að verkum að hægt er að bóka þetta beint í bókunarkerfum erlendis. Ég er alla vega ánægður með að sjá að við erum að sjá hlutfallslega sömu aukninguna. Ég er viss um að það eru tækifæri þarna og vonumst við til þess að geta aukið þetta enn frekar.“