Sé framlögum til kirkjugarða bætt við – en þau eru rúmur milljarður króna í ár – námu ríkisframlög til kirkjunnar um 5,4 milljörð­um króna í fyrra. Framlögin jukust um 400 milljónir milli ára á raunvirði. Sé litið lengra aftur í tímann hafa ríkisútgjöld til Þjóð­kirkjunnar þó minnkað verulega að raunvirði.

Þegar mest var, árið 2007, greiddi ríkið um 7,4 milljarða króna til kirkjunnar á verð­lagi síðasta árs. Síðan þá hafa ríkisframlög til kirkjunnar því minnkað um næstum því 30% á raunvirði. Á fyrstu árunum eftir að kirkjujarðasamkomulagið var undirritað voru ríkisframlög til þjóðkirkjunnar um og yfir 0,4% af landsframleiðslu.

Þetta hlutfall hefur hins vegar minnkað á hverju einasta ári síðan 2005. Í ár má gera ráð fyrir að Þjóðkirkjan fái aðeins sem samsvarar 0,23% af landsframleiðslu frá ríkinu. Bein framlög ríkisins til Þjóð­ kirkjunnar voru skorin harkalega niður í kreppunni. Á meðan almenn ríkisútgjöld jukust um 5% að raunvirði á tímabilinu 2007 til 2011 voru bein framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar skorin niður um þriðjung. Þessi mikli niðurskurð­ ur hefur að hluta til verið dreginn til baka síðan. Í ár er beint framlag ríkisins til Þjóðkirkjunnar um 9% meira en árið 2011, en á sama tímabili hafa önnur ríkisútgjöld vaxið um 1 prósent að raunvirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .