Náttúrulyfjaframleiðandinn Florealis tapaði 131 milljón króna á liðnu ári en tapið dróst saman um 55 milljónir króna milli ára.

Sölutekjur jukust um liðlega þriðjung og námu 90 milljónum króna þrátt fyrir að faraldurinn hafi haft mikil áhrif á félagið sem nýtti sér meðal annars hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Rekstrarkostnaður nam 227 milljónum króna, samanborið við 278 milljónir árið áður.

Eignir félagsins námu 205 milljónum króna í lok árs, samanborið við 165 milljónir ári fyrr. Þar af námu skuldir 140 milljónum króna, en þær jukust um tæpar 83 milljónir milli ára. Eigið fé nam tæpum 66 milljónum króna, samanborið við 108 milljónir ári fyrr. Eiginfjárhlutfall félagsins lækkaði því úr 65% í 32%.

Í skýrslu stjórnar segir að félagið hafi gefið út 87 milljóna króna skuldabréf og að viðræður séu í gangi um nýtt fjármagn. Takist það ekki leiki vafi á rekstrarhæfi félagsins. Kolbrún Hrafnkelsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins.