Afgangur á þjónustujöfnuði jókst um tæpan þriðjung milli ára, en hann nam 26,9 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en á sama tíma í fyrra var hann 20,6 milljarðar.

Á þessum tíma árs hefur aldrei áður mælst meiri þjónustujöfnuður, en heildarútflutningur þjónustu nam 110 milljörðum króna og jókst hann um 9,3 milljarða króna milli ára.

Heildarinnflutningurinn nam 83 milljörðum króna en hann jókst um 3,1 milljarð, svo sjá má að vöxtur innflutnings er hægari en útflutningsins.

Mikil aukning erlendra ferðamanna

Aukninguna í þjónustuútflutningi má að mestu rekja til erlendra ferðamanna, en aukning ferðaliðarins nam 12,6 milljörðum króna sem samsvarar 41% aukningu milli ára. Á sama tíma jókst fjöldi ferðamanna um 36%, en þessi aukning hefur haldist í hendur eins og gefur að skilja.

Aukningin innan ferðaliðarins jókst um 129% frá fyrsta ársfjórðungi 2013 til fyrsta ársfjórðungs 2016 en á sama tíma jókst fjöldi ferðamanna um 141%.

Aukin erlend kortavelta

Innflutningur undir ferðaliðnum eykst einnig en það má rekja til aukinna ferðalaga Íslendinga út fyrir landsteinana, en hann jókst um 5,5 milljarða króna.

Fóru alls 19% fleiri Íslendingar frá leifstöð á fyrsta ársfjöróungi þessa árs heldur en á sama tíma í fyrra. Einnig jókst erlend kortavelta Íslendinga um 32,4% en hún er þó að hluta til vegna aukinnar netverslunar Íslendinga innanlands.

Nálægt meti ferðalaga Íslendinga 2008

Í kjölfar efnahagskreppunnar drógust utanlandsferðir Íslendinga mikið saman, eða um 37% milli áranna 2008 og 2009. En nú nemur ársmeðaltalið miðað við síðustu fjóra ársfjórðunga um 117 þúsund utanferða, sem er mjög nálægt hámarkinu á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 þegar þær náðu tæpum 120 þúsund.

Ef þessi vöxtur heldur áfram líkt og síðustu tvö árin mun þetta met verða slegið strax á öðrum ársfjórðungi spáir Hagfræðideild Landsbankans.