*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 16. apríl 2020 12:09

Þriðjungsfjölgun gesta í Kringlunni

Væntanleg aflétting samkomubanns eykur bjartsýni og merkja verslunarmiðstöðvar strax fjölgun. Sunnudagslokunum hætt.

Ritstjórn
Sigurjón Örn Þórsson er framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptavinum í bæði Kringlunni og Smáralind hefur fjölgað á ný síðustu daga eftir að aflétting samkomubanns var boðuð í áföngum frá 4. maí næstkomandi á þriðjudag. Páskarnir voru einnig nokkuð góðir en sem dæmi þá var 33% fjölgun gesta á laugardag í Kringlunni frá sama degi vikunni áður að því er bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið greina frá.

Þetta segir Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar, en miðað við talningar þar heimsóttu einungis 4.000 manns verslunarmiðstöðina dagana 24. til 31. mars. Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar segir væntanlega slökun á samkomubanninu þegar vera farin að hafa jákvæð áhrif, þó enn séu einhverjar verslanir áfram lokaðar.

„Við skynjum að hér er að kvikna líf,“ segir Sigurjón Örn sem segir að botninum hafi verið náð þarna í lok mars en fljótlega hafi farið að sjást batamerki upp úr mánaðamótum. „Á laugardaginn síðasta var hinsvegar 33% aukning í aðsókn frá laugardeginum á undan.“

Sigurjón Örn segir Kringluna snemma hafa hætt að krefjast þess af verslunum í húsinu að allir væru með opið á sama tíma, auk þess sem lokað hafi verið á sunnudögum, en opið verði næsta sunnudag milli 13 og 17. Þeir sem hefðu lokað væru teljandi á fingrum annarrar handa.

„Frávikið frá þessu eru svo veitingastaðirnir, en flestir veitingastaðanna sem nota sameiginlega rýmið á Stjörnutorgi hafa lokað, vegna samkomubannsins. Ég held að þeir geti allir, að hluta til a.m.k., opnað aftur hinn 4. maí.“