„Tölur frá Seðlabankanum benda til þess að um 30% af þeirri aukningu sem hefur orðið í kortaveltu Íslendinga milli ára sé vegna erlendrar veltu/neyslu. Sú neysla skilar sér því ekki til íslenskra fyrirtækja og leiðir því ekki af sér aukna fjárfestingu í einkageiranum, líkt og sumir hafa bent á," segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Því segir í markaðspunktunum að flest bendi því til þess að sá hagvöxtur sem drifinn er áfram af einkaneyslu hér á landi, sé ekki sjálfbær þar sem einkaneyslan á að miklu leyti rætur sínar að rekja til tímabundinna aðgerða, og alls ekki ef fjármagnið rennur síðan í vasa erlendra fyrirtækja (sem takmarki keðjuverkandi áhrif neyslunnar).

Einkaneysla  jókst um 3,8% milli ára, fyrstu 9 mánuði ársins, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Svipaða þróun má sjá á fjórða ársfjórðungi ef marka má tölur um kortaveltu samkvæmt markaðspunktum greiningar Arion.