41% þátttakenda í könnun á vefsíðu FÍB hefur óskað eftir lægri iðgjöldum við tryggingafélag sitt í kjölfar umræðu síðustu daga, eins og það er orðað í spurningu FÍB. Fjórir af hverjum fimm segjast hafa náð tilætluðum árangri. Því segist þriðjungur svarenda hafa fengið lækkun á iðgjöldum sínum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FÍB. Þar kemur jafnframt fram að 44% svarenda segjast eiga eftir að leita tilboða í tryggingar sínar. 15% segjast ánægðir með núverandi stöðu tryggingamála.

FÍB segir að af frásögnum frá félagsmönnum megi ráða að gegnumgangandi náist 15% lækkun iðgjalda með því að leita tilboða. Iðgjaldatekjur af skaðatryggingum nemi um það bil 45 milljörðum króna á ári. Sé gert ráð fyrir 15% meðallækkun iðgjalda hjá þriðjungi tryggingataka hafi tekjur tryggingafélaganna þegar skerst um rúma tvo milljarða króna.

Segja vitund neytenda hafa vaknað

FÍB setur lækkun iðgjalda í samhengi við kröftug mótmæli við arðgreiðsluáform tryggingafélaganna. Samtökin draga þá ályktun að „andúð á óhóflegum arðgreiðsluáformum tveggja tryggingafélaga hafi vakið vitund neytenda svo um munar og leitt til þess að stór hluti þeirra hefur þegar óskað eftir tilboðum í tryggingar sínar og að annar eins hópur segist eiga það eftir.“

Í könnuninni stendur: „Okkur leikur hugur á að vita hvort umræða síðustu daga um tryggingafélögin hefur leitt til aðgerða af þinni hálfu til að fá betri kjör á tryggingum heimilisins. Veldu það svar sem þér finnst best eiga við um þínar aðstæður.“

Gefinn er kostur á átta svarmöguleikum, eftir því hvort þátttakendur hafa leitað tilboða, fengið lækkun, hyggjast leita tilboða eða hafa ekkert gert í sínum málum. Yfir 600 svör höfðu borist þegar þetta er skrifað.