Sjö árum eftir hrun og eftir að sjötíu dómar hafa verið kveðnir upp í gengislánamálum í Hæstarétti eru mál fjölda fyrirtækja enn óleyst. Þetta kom fram í erindi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda á fundi félagsins um stöðu gengislána íslenskra fyrirtækja sem haldinn var í morgun.

Telja má að 547 milljarðar, eða um þriðjungur af upphaflegri upphæð gengislána til fyrirtækja, sé enn í ágreiningi og málin óleyst. Á héraðdómstigi hafa fallið að minnsta kosti 186 dómar í málum sem varða gengistryggingu lána. Í erindi sínu spurði Ólafur hvort bankarnir hefðu látið dómstólum eftir að ráðstafa afslætti af lánunum, í stað þess að gera frjálsa samninga við viðskiptavini sína á viðskiptalegum forsendum. Hann benti jafnframt á að samkvæmt niðurstöðum hagfræðinga sem hefðu skoðað málið væri enn óráðstafað um 290 milljörðum króna af upphaflegum afslætti sem gefinn hefði verið af gengislánunum þegar þau voru færð inn í nýju bankana. „290 milljarðar væru mikil innspýting fyrir íslenskt efnahagslíf, en hún situr föst í pípunum,“ sagði Ólafur.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um fundinn.