Lífeyrissjóður verslunarmanna og slitastjórn Glitnis hafa komist að samkomulagi um fullnaðaruppgjör á gjaldmiðlavarnarsamningum. Samkomulagið er háð því að slitabúið fái undanþágu frá gjaldeyrishöftum, en Glitnir fer fram á að sá hluti sem sjóðurinn greiðir með evrum verði ekki skilaskyldur, heldur verði fyrir utan Ísland, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var tillaga Lífeyrissjóðs verslunarmanna um uppgjör á gjaldmiðlavarnarsamningunum samþykkt á kröfuhafafundi Glitnis í gær.

Samkvæmt samkomulaginu mun Lífeyrissjóður verslunarmanna greiða Glitni tæplega 8,2 milljarða króna. Þar af verði um þriðjungur greiddur með evrum. Þá muni sjóðurinn jafnframt framselja samþykktar kröfur sínar, að upphæð um 4,7 milljarða, á hendur slitabúinu, til Glitnis.