*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 24. febrúar 2020 14:00

Þriðjungur sagt upp fólki

Launakostnaður vegna kjarasamninga leiða til hagræðingaraðgerða hjá yfir 70% fyrirtækja. Flest stytta einu sinni í viku.

Ritstjórn
Frá mótmælastöðu verkalýðsfélaganna í aðdraganda lífskjarasamninganna við Hús atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Um 36% fyrirtækja í Félagi atvinnurekenda sem svöruðu könnun félagsins þess efnis hafa þurft að segja upp fólki til að mæta hækkun launakostnaðar vegna kjarasamninganna sem gerðir voru síðastliðið vor.

Annað eins hefur svo gripið til annarrar lækkunar kostnaðar til að mæta launahækkuninni svo yfir 70% fyrirtækjanna hafa gripið til hagræðingaraðgerða vegna kjarasamninganna. Ríflega helmingur fyrirtækjanna hafa bæði ekki trú á að stytting vinnuvikunnar í kjarasamningunum auki framleiðni og að hún auki starfsánægju en um fjórðungur hafa litla eða enga trú á að hún auki hana.

Fjórðungur fyrirtækja í könnun FA, sem fram fór 16. til 23. janúar, segist ekki hafa þurft að grípa til neinna aðgerða til hagræðingar, 2% sögðust svo hafa hækkað verð og 2% sögðust hafa farið í markaðssókn til að auka tekjur.

Í könnuninni var jafnframt spurt út í hvernig útfærsla fyrirtækjanna á styttingu vinnuvikunnar yrði og kom í ljós að algengasta útfærslan var að stytta einn vinnudag vikunnar um 45 mínútur en 43% fyrirtækjanna tóku þann kost í samráði við starfsfólkið.

17% ákváðu að stytta einn dag í mánuði um 3 klukkustundir og 15 mínútur en 14% stytta hvern dag vikunnar um 9 mínútur, 2% safna svo styttingunni upp innan árs í heila frídaga en um fjórðungur fara aðrar leiðir. Nánar má lesa um bæði uppsagnirnar og styttinguna á vef FA.

Í janúar var skráð atvinnuleysi 4,8%, og jókst það um 0,5 prósentustig frá því í desember, en að jafnaði voru 8.808 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í janúar sem er fjölgun um 789 frá því í desember. Alls voru 3.406 fleiri á atvinnuleysisskrá í janúar 2020 en í janúar árið áður.