Rúmlega þriðjungur Íslendinga er andvígur því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu en nær helmingur er hvorki fylgjandi né andvígur. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 15.-21. nóvember 2018. Alls sögðust 18% mjög andvígir úrsögn Breta úr ESB, 18% frekar andvígir, 9% frekar fylgjandi og 9% mjög fylgjandi. Þá kváðust 46% hvorki fylgjandi né andvíg.

Karlar reyndust líklegri til að lýsa yfir skoðun með eða á móti (38% andvígir; 20% fylgjandi) á útgöngu Breta en konur (33% andvígar; 16% fylgjandi) en konur voru líklegri til að segjast hvorki fylgjandi né andvígar (51%) heldur en karlar (42%).

Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast andvígir (40%) eða hvorki andvígir né fylgjandi (51%) heldur en svarendur annarra aldurshópa. Hlutfall þeirra sem kváðust fylgjandi útgögnu Breta úr ESB fór vaxandi með auknum aldri en 31% svarenda í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) kváðust fylgjandi, samanborið við 9% þeirra í yngsta aldurshópi.

Þá voru svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu (40%) líklegri til að segjast andvígir því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu en þeir af landsbyggðinni (27%) en íbúar landsbyggðarinnar voru líklegri til að segjast fylgjandi útgöngunni (22%) en þeir á höfuðborgarsvæðinu (16%).

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Framsóknarflokks (41%), Sjálfstæðisflokks (36%) og Miðflokks (31%) reyndist líklegast til að segjast fylgjandi útgöngu Breta úr ESB en stuðningsfólk Samfylkingar (72%), Viðreisnar (57%) og Pírata (57%) reyndust líklegust til að segjast andvíg. Þá reyndust stuðningsfólk Flokks fólksins (63%) líklegust allra svarenda til að segjast hvorki fylgjandi né andvíg.