„Það má gera ráð fyrir því að öllu óbreyttu að það þurfi vaxandi framlög til sjóðsins,“ segir Jónas Fr. Jónsson, formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), í samtali við Morgunblaðið . Þar kemur fram að námslán sem sjóðurinn hefur veitt án ábyrgðar frá árinu 2009 hafi numið um 70 milljörðum króna síðustu áramót. Þau hafi þá verið um þriðjungur af lánasafni sjóðsins.

Jónas segir jafnframt að vísbendingar séu komnar fram um að vanskil séu meiri vegna lána sem veitt voru án ábyrgðar frá 2009 en fyrri lána. Telur hann ekkert benda til þess að fjárþörf sjóðsins muni minnka á næstu árum. „Við sjáum frekar að lánin hafa verið að hækka og endurgreiðslutíminn að lengjast. Svo er minnkandi hluti af lánunum með tryggingu.“