*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 17. nóvember 2017 10:49

Þriðjungur nýskráðra bíla óhefðbundnir

Hlutfall raf-, metan eða tengitvinnbíla nam 29,7% allra nýskráðra bíla síðustu þrjá mánuði sem er ríflega tvöföldun milli ára.

Ritstjórn

Síðustu þrjá mánuði hafa tæplega þriðjungur allra nýskráðra bíla hér á landi ekki verið hefðbundnir eldsneytisnúnir bílar. Voru 29,7% nýrra bíla sem skráðir voru í ágúst, september og október knúnir rafmagni, metani, eða eru tengitvinnbílar, sem nýta bæði rafmagn og hefðbundið eldsneyti að því er RÚV greinir frá, en á sama tíma í fyrra var hlutfallið tæp 13%.

Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs segir mikilvægt að innflutningsgjöld á útblásturslitla eða - lausa bíla verði gert enn hagstæðara en nú er í samanburði við aðra bíla. „Það sem hjálpar líka er að sífellt koma á markaðinn fleiri tegundir bíla sem hægt er að stinga í samband,“ segir Sigðurður.

„Meira úrval af glæsilegum bílum sem stinga má í samband hefur líka hjálpað og í raun erum við alveg við það að mörgum finnst að glænýr bíll eigi að hafa innstungu hvort sem um hreinan rafbíl eða tengiltvinnbíl er að ræða. Ég tel ótrúlega stutt í það að neytendum finnist gamaldags og úrelt að hafa ekki snúru með bíl og þá verður ekki aftur snúið.“

Stikkorð: Bílar nýskráningar eldsneyti