Á fyrsta ársfjórðungi seldust 2.481 nýir fólksbílar og hefur sala nýrra fólksbíla í almenna notkun aukist um 14,1% miðað við sama tímabil árið á undan. Bílgreinasambandið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að af sölu í almenna notkun hafi sala til fyrirtækja aukist um 2,1% en sala til einstaklinga aukist um 19,4%. Hinsvegar hafi heildarsala milli ára farið niður um 8,8% ef miðað sé við sama tímabil árið 2019 en þá hafi verið búið að selja 2.721 nýjan fólksbíl. Samdrátturinn í heildarsölunni skýrist af minni sölu nýrra fólksbíla til bílaleiga.

„Mars mánuður einn og sér er nánast á pari við sölu nýrra fólksbíla árið á undan en þá seldust 1.074 fólksbílar en í mars í ár voru seldir 1.078 nýir fólksbílar.

Það sem af er ári þá er sala rafmagnsbíla 32,3% og í mars mánuði einum náði sú sala 48,8% af sölu nýrra fólksbíla.  Sala bensínbíla er 21,9% af sölu ársins og sala díselbíla er 18,2%,“ segir í tilkynningunni.