Bundið er í lög að sveitarstjórnum beri að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Í nýjum sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi í fyrra, er lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga megi ekki fara yfir 150 prósent. Ákveðinn aðlögunartími er gefinn og hafa sveitarfélög allt að 10 ár til að laga reksturinn að þessu markmiði. Viðskiptablaðið rýndi aðeins í rekstur sveitarfélaga út frá tölum úr Árbók sveitarfélaga og ársreikningum þeirra fyrir árið 2012.

Heildartekjur sveitarfélaganna námu 226 milljörðum króna í fyrra og hækkuðu um 11 prósent milli ára, að því er fram kemur í Árbókinni. Tekjurnar hafa vaxið úr því að vera 11,53 prósent af landsframleiðslu árið 2000 í 13,3 prósent árið 2012. Hámarki náðu þær árið 2007 þegar þær voru 14,2 prósent af landsframleiðslu. Heildarútgjöld sveitarfélaganna voru 233 milljarðar króna í fyrra eða 13,7 prósent af landsframleiðslu.

Útgjöldin hækkuðu um 13,6 milljarða milli ára. Miðað við verðvísitölu samneyslunnar hækkuðu útgjöld sveitarfélaga um 1,5 milljarða milli ára að raungildi.

Staðan verst í Sandgerðisbæ
Miðað við ársreikninga síðasta árs skuldar þriðjungur sveitarfélaga landsins meira en 150 prósent af tekjum sínum. Verst er staðan í Sandgerðisbæ en þar er þetta hlutfall 313 prósent. Heildartekjur A- og B-hluta sveitarfélagsins námu í fyrra tæpum 1,6 milljörðum króna en skuldirnar rúmum 4,9 milljörðum. Eigið fé var tæpar 970 milljónir. Næstverst er staðan í Reykjanesbæ þar sem hlutfall skulda af tekjum er 270 prósent og þar á eftir er Reykjavíkurborg en þar er þetta hlutfall 268 prósent. Það sveitarfélag sem stendur best að þessu leyti er Tjörneshreppur á Norðurlandi eystra þar sem búa 55 manns. Þar er hlutfall skulda af tekjum aðeins um 3 prósent. Alls eru 10 sveitarfélög með þetta hlutfall undir 20 prósentum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .